Innlent

Árekstur á umdeildum gatnamótum: Ökumaður líklega undir áhrifum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Umrædd T-gatnamót sem krafist er bóta á sem allra fyrst.
Umrædd T-gatnamót sem krafist er bóta á sem allra fyrst. Kort/Loftmyndir.is
Betur fór en á horfðist þegar harður árekstur tveggja bíla varð á gatnamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar við Rauðhellu, rétt austan við álverið í Straumsvík, á þriðja tímanum í gær. Notast þurfti við klippur vegna þess hve illa farnir bílarnir voru en sem betur fer reyndust meiðsli ökumanna minniháttar.

Sá sem talinn er valdur að árekstrinum er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eða lyfja. Þetta staðfestir lögreglan í Hafnarfirði í samtali við Vísi. Er málið til rannsóknar þar á bæ.

Umrædd gatnamót hafa verið Hafnfirðingum hugleikin undanfarin misseri. Fyrirtæki í Hellnahrauni og Selhrauni eru orðin langþreytt á gatnamótunum og buðu Haraldi Haraldssyni bæjarstjóra á samstöðufund í byrjun janúar með það fyrir augum að ýta á eftir framkvæmdum.

Fulltrúi fyrirtækjanna fór í kjölfarið á fund innanríkisráðherra ásamt bæjarstjóra og formanni skipulags- og byggingaráðs bæjarins. Minntu þau á að þúsundir starfsmanna, íbúa og viðskiptavini aki daglega um núverandi T-gatnamót, þar af hundruð stórra flutningabíla. Vilja þau flýta fyrirhuguðum framkvæmdum á svæðinu, hefja þær árið 2017 í stað 2018.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Vilja ljósastýringu í millitíðinni

Umhverfis- og skipulagsráð Hafnarfjarðar sendi Vegagerðinni síðast bréf 15. janúar þar sem því var beint til Vegagerðarinnar að „fara nú þegar í aðgerðir við gatnamót Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar til að tryggja öryggi þeirra sem aka þar um.“

Síðar í bréfinu segir að „reynist ekki unnt að fara í framkvæmdir nú þegar er farið þess á leit við Vegagerðina að sett verði up ljósastýring á gatnamótunum.“

Í svari Vegagerðarinnar til bæjarins segir að í þingsályktun um samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022, sem samþykkt var á Alþingi 2012, hafi verið áætlað að verja 1,8 milljörðum króna í Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar á 2. tímabili áætlunarinnar, þ.e. frá 2015-2019.

Í samráði við tæknideild Hafnarfjarðar miði Vegagerðin að því að næsti áfangi við tvöföldun Reykjanesbrautar verði mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg, þar sem áreksturinn varð í gær. Áætlaður kostnaður við gatnamótin er 1 milljarður króna.

Vallarhverfið í Hafnarfirði.Vísir/GVA
Hönnun liggur fyrir

Endurskoðun á samgönguáætlun 2015-2026 stendur nú yfir og gerir Vegagerðin ráð fyrir að áætlunin verði afgreidd á yfirstandandi þingi. Talið er að fjárveiting til gatnamótanna fáist varla fyrr en árið 2018 eins og áður hafi verið gert áætlun um.

Hönnun er lokið á gatnamótunum og því ætti að taka skamman tíma að bjóða framkvæmdina út þegar fjárveitingu hefur verið lokið að sögn Vegagerðarinnar. Þangað til er til skoðunar hvernig megi bæta öryggi vegfarenda. Þar eru umferðarljós til skoðunar og sömuleiðis breikkun gatnamótanna sem gæti dregið úr slysahættu.

Unnið er að málinu með tæknideild Hafnarfjarðarbæjar og stefnt að því að niðurstöður liggi fyrir á næstum mánuðum svo framkvæmdir geti hafist um mitt sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×