Viðskipti innlent

Arðgreiðslur tryggingafélaganna: „Við förum fram á það að þessir peningar fari til þeirra sem lögðu þá til“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
„Við teljum að Fjármálaeftirlitið sé ekki að sinna hlutverki sínu að sinna hagsmunum neytenda. Þarna er um það að ræða að það er verið að tæma þessa svokölluðu bótasjóði til hluthafa. Bótasjóðirnir heita á tyllidögum eign vátryggingartaka þannig að það er mjög einkennilegt ef það er verið að breyta reikningsskilaaðferðum og það verða til einhverjir auknir fjármunir innan fyrirtækjanna þá sé það alveg sjálfsagt að taka þá fjármuni sem fram að þessu hafa verið teknir af viðskiptavinum og stinga þeim í vasa eigenda sem arði,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), í samtali við fréttastofu um arðgreiðslur tryggingafélaganna.

FÍB hefur sent Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, bréf þar sem skorað er á hann að grípa tafarlaust til aðgerða til að stöðva 8,5 milljarða arðgreiðslur sem tryggingafélögin hyggjast greiða hluthöfum sínum á næstu misserum.

Runólfur vill að peningarnir fari frekar í það að lækka iðgjöld.

„Við förum fram á það að þessir peningar fari til þeirra sem lögðu þá til, það er viðskiptavina fyrirtækjanna,“ segir Runólfur.

Aðspurður hvort að menn séu mögulega að brjóta lög með arðgreiðslunum segir Runólfur:

„Við teljum að það sé farið mjög á skjön við þann skilning sem hefur verið uppi varðandi þessa fjármuni. [...] Þessir sjóðir mynda þann stofn sem veldur því að það er hugsanlega neikvæð afkoma af greininni eins og til dæmis ökutækjatryggingum en svo kemur í ljós að það hefur verið ofáætlað í þessa sjóði, hressilega. [...] Það gerðist á vakt Fjármálaeftirlitsins og það er það sem við erum að gagnrýna.“


Tengdar fréttir

Ný reikningsskil skapa milljarða í arð

VÍS, Sjóvá og TM munu hafa greitt tæpa 30 milljarða til eigenda sinna frá 2013 gangi áform um arðgreiðslur og endurkaup hlutabréfa eftir. Félögin drógu úr afsláttum og hækkuðu iðgjöld í fyrra. Tryggingarekstur á að standa undir sér






Fleiri fréttir

Sjá meira


×