Erlent

Árásirnar í Köln: Lögreglan þarf að endurskoða starfsaðferðir sínar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hátt í hundrað konur urðu fyrir grófu ofbeldi við aðaljárnbrautarstöðina í Köln á nýársnótt.
Hátt í hundrað konur urðu fyrir grófu ofbeldi við aðaljárnbrautarstöðina í Köln á nýársnótt. vísir/getty
Ralf Jaeger, innanríkisráðherra í þýska sambandslandinu Norður-Rín og Vestfalíu, segir að lögreglan verði að tryggja að það ofbeldi sem konur urðu fyrir í Köln á nýársnótt, og fleiri þýskum borgum, endurtaki sig ekki. Lögreglan þurfi að endurskoða starfsaðferðir sínar og bregðast við því að stórir hópar karlmanna hafi ráðist með grófum hætti á tugi kvenna.

Lögreglan í Köln hefur viðurkennt að mistök hafi verið gerð á nýársnótt. Aðstæður hafi verið vanmetnar og viðbúnaður lögreglu þetta kvöld hafi ekki verið nægur.

„Eitthvað þessu líkt má aldrei gerast aftur, ekki aðeins í Köln, heldur einnig í öðrum stórum borgum. Þetta má ekki gerast og lögreglan sem og borgaryfirvöld þurfa að bregðast strax við,“ segir Jaeger.

 

Þá varar ráðherrann við því að árásirnar verði notaðar sem tæki í hræðsluáróðri gegn flóttamönnum en talið er að mennirnir sem hafi ráðist á konurnar í Köln hafi verið arabar og/eða frá Norður-Afríku.

„Sú orðræða sem nú fer fram hjá hægriöfgahópum og á internetinu er jafnhræðileg og ofbeldisglæpirnir gegn konunum. Þetta eitrar allt samfélagið,“ segir Jaeger.

Öfgahópar á borð við Pegida segja árásirnar beina afleiðingu af þeim mikla fjölda flóttamanna sem komið hefur til Þýskalands undanfarið en borgarstjóri Kölnar segir ekkert benda til þess að flóttamenn hafi verið að verki á nýársnótt.


Tengdar fréttir

Ofbeldi gegn konum í Köln vekur mikla reiði

Lögreglan í Köln hefur viðurkennt margvísleg mistök í tengslum við kynferðisofbeldi sem tugir kvenna urðu fyrir á gamlársdag. Innanríkisráðherra Þýskalands krefst skýringa. Lögreglustjórinn segist ekki ætla að segja af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×