Erlent

Árásin verði rannsökuð sem stríðsglæpur

Birta Björnsdóttir skrifar
Aðeins var liðinn sólarhringur af umsömdu tveggja daga vopnahléi í Sýrlandi þegar loftárás var gerð á flóttamannabúðir í norðurhluta landsins.Árásin var gerð á flóttamannabúðir í Kamouna í Idlibhéraði í Sýrlandi.

Búðirnar eru í nágrenni Aleppo og um 10 kílómetrum frá landamærum Sýrlands og Tyrklands. Í búðunum hafast við rúmlega 3000 manns, að langmestum hluta fólk sem flúið hefur frá Aleppo og nágrenni.

Sýrland skiptist nú í yfirráðasvæði stríðandi fylkinga og fara uppreisnarmenn með völdin á svæðinu sem árás gærdagsins var gerð.

Grunur beinist helst að sýrlenska stjórnarhernum eða Rússum en ekkert hefur fengist staðfest um hver ber ábyrgð á árásinni. Forseti landsins, Bash­ars al-Assad, sendi helsta bandamanni sínum, Vladimír Pútín Rússlandsforseta, skeyti í fyrradag þar sem hann sagðist staðráðinn í að vinna gjörsigur á uppreisnarmönnum og segist jafnframt ætla að „mölbrjóta niður alla andstöðu."

Í harðorðri ályktun frá mannréttindadeild Sameinuðu þjóðanna er farið fram á ítarlega rannsókn á árásinni, sem verði rannsökuð sem stríðsglæpur. Og fleiri fordæma árásina á flóttamannabúðirnar, meðal annarra talsmaður Hvíta hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×