Erlent

Árásin í München: Armela og Dijamant voru í hópi fórnarlamba Solboly

Atli Ísleifsson skrifar
Naim Zabergja missti son sinn Dijamant í árásinni í München í gær.
Naim Zabergja missti son sinn Dijamant í árásinni í München í gær. Vísir/AFP
Hin fjórtán ára Armela Segashi og hinn tvítugi Dijamant Zabergja frá Kósóvó voru í hópi fórnarlamba hins átján ára Ali David Solboly sem varð níu manns að bana og særði 27, þar af tíu alvarlega, í og í kringum verslunarmiðstöð í München í gær.

„Það er með mikilli sorg sem ég greini frá því að sonur minn, Dijamant Zabergja, 21, var drepinn í München í gær.” Þetta ritar Naim Zabergja, faðir Dijamant á Facebook-síðu sína í dag. Reuters greinir frá þessu.

Dijamant Zabergja var eitt af fyrstu fórnarlömbum árásarinnar sem var nafngreint. Naim Zabergja fór að verslunarmiðstöðinni Olympia-Einkaufszentrum í dag þar sem hann bar á blómvendi og mynd af syni sínum.

Dijamant var einn af þremur Kósóvómönnum sem var skotinn til bana af hinum átján ára árásarmanni.

Á meðal yngstu fórnarlambanna

Armela var á meðal yngstu fórnarlamba árásarinnar. Bróðir hennar birti mynd af systur sinni á Facebook um miðnætti þar sem hann sagði hana hafa verið í kringum verslunarmiðstöðina í gær og að fjölskyldan hafði ekkert heyrt í henni frá því að fréttir bárust af árásinni. Í morgun greindi hann svo frá því að Armela hefði fallið í árás Solboly.

„Armela – ástkær dóttir okkar, systir og vinur var drepin í árásinni í München í dag. Við elskum þig engill,“ skrifaði bróðirinn í morgun.

Ung fórnarlömb

Alls fórust níu manns í árásinni auk árásarmannsins sjálfs sem talinn er að hafi fyrirfarið sér skömmu eftir árásina. Átta hinna látnu voru tvítugir eða yngri, en yngstu fórnarlömbin voru fjórtán ára.

Árásarmaðurinn var Þjóðverji af írönskum uppruna sem var fæddur og upp alinn í München. Hann bjó á heimili foreldra sinna í hverfinu Bezirk Maxvorstadt og hafði ekki áður komið við sögu lögreglu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×