Erlent

Árásin í Istanbúl: Níu hinna látnu voru Þjóðverjar

Atli ísleifsson skrifar
Árásin varð hjá egypsku broddsúlunni (e. obelisk) nærri Bláu moskunni klukkan 8:20 að íslenskum tíma, eða 10:20 að staðartíma.
Árásin varð hjá egypsku broddsúlunni (e. obelisk) nærri Bláu moskunni klukkan 8:20 að íslenskum tíma, eða 10:20 að staðartíma. Vísir/EPA
Níu af þeim tíu sem fórust í sjálfsvígssprengjuárás í Sultanahmet-hverfinu í Istanbúl í morgun voru Þjóðverjar. Talsmenn tyrkneskra stjórnvalda greina frá þessu.

Lögregla telur að árásarmaðurinn hafi verið sýrlenskur og fæddur árið 1988. Talið er að hann hafi haft tengsl við hryðjuverkasamtökin ISIS.

Auk þeirra tíu sem féllu særðust fimmtán í árásinni, þar af tveir Norðmenn.

Sultanahmet er einn af elstu borgarhlutum Istanbúl og þar er að finna marga af helstu vinsælustu ferðamannastöðum borgarinnar, meðal annars Bláu moskuna og Hagia Sofia eða Ægisif. Árásin varð nærri egypsku broddsúlunni (e. obelisk) nærri Bláu moskunni klukkan 8:20 að íslenskum tíma, eða 10:20 að staðartíma.

Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, boðaði í morgun ríkisstjórn landsins til neyðarfundar vegna árásarinnar.

Sprengjuárásir hafa verið tíðar í Tyrklandi síðustu  mánuði. Rúmlega þrjátíu manns féllu í árás fyrir utan lestarstöð í höfuðborginni Ankara í júlí og í október fórust 103 í árás sjálfsvígssprengjumanna í friðargöngu í Ankara.


Tengdar fréttir

Öflug sprenging í Istanbúl

Tyrkneskir miðlar segja að tíu manns hið minnsta hafi látið lífið í sjálfsvígssprengjuárás í Sultanahmet-hverfinu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×