Innlent

Árásin í Grundarfirði: Mun líklega aldrei ná sér að fullu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Hann var ekki bara í lífshættu. Hann var í margfaldri lífshættu," segir læknir.
"Hann var ekki bara í lífshættu. Hann var í margfaldri lífshættu," segir læknir. vísir/vilhelm
Maðurinn sem varð fyrir líkamsárásinni í Grundarfirði í júlí síðastliðnum mun aldrei ná sér að fullu. Nær engar líkur eru á að hann muni nokkurn tímann lifa því sem skilgreint er sem eðlilegt líf og mun að öllum líkindum alltaf þurfa á utanaðkomandi þjónustu að halda. Þetta kom fram í máli tveggja lækna sem báru vitni í Héraðsdómi Reykjaness við aðalmeðferð ríkissaksóknara á hendur tveggja manna sem grunaðir eru um stórfellda líkamsárás. 

Mönnunum tveimur, Íslendingi og Þjóðverja, er gefið að sök að hafa ráðist á karlmann á þrítugsaldri hinn 17. júlí síðastliðinn en neita báðir sök í málinu. Hluti árásarinnar náðist þó á myndbandsupptöku. 

„Hann var ekki bara í lífshættu. Hann var í margfaldri lífshættu,“ sagði annar læknanna sem bar vitni í málinu.

Meira hér: Frásögn ákærðu

Slagsmálin stóðu yfir í skamman tíma, einungis nokkrar mínútur, en nægilega lengi til þess að maðurinn missti meðvitund og hlaut meðal annars alvarlegan heilaskaða. Hann missti minnið og telja læknar litlar líkur á að hann öðlist minnið aftur. Hvorki langtíma- né skammtímaminni.

Einungis hluti slagsmálanna náðist á myndbandsupptöku, en þar sést maðurinn detta aftur fyrir sig og skella með höfuðið í jörðina. Talið er líklegt að hann hafi misst meðvitund við fallið. Þá sést annar mannanna standa yfir honum og slá hann tveimur höggum í andlitið.

Sá sem fyrir árásinni varð dvelur nú á endurhæfingardeildinni á Grensás. Að endurhæfingu lokinni fær hann íbúð í svokallaðri sjálfstæðri búsetu  hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra þar sem hann fær utanaðkomandi skipulagða þjónustu.  Hann var ekki kvaddur fyrir dóm í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×