Erlent

Árásarmaðurinn aðdáandi Trumps og Marine Le Pen

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hópur fólks kom saman í Quebec í fyrrakvöld til að minnast hinna látnu.
Hópur fólks kom saman í Quebec í fyrrakvöld til að minnast hinna látnu. Nordicphotos/AFP
Maðurinn sem myrti sex manns í skotárás á mosku í Quebec á sunnudagskvöld heitir Alexandre Bissonette, er 27 ára gamall lögfræðinemi við Laval-háskóla í Quebec og var aðdáandi Donalds Trump og Marine Le Pen.

„Hann var maður sem oft kom með öfgakenndar athugasemdir á samfélagsmiðlum þar sem hann talaði illa um flóttafólk og femínisma,“ er haft eftir François Deschamps atvinnuráðgjafa á fréttasíðu kanadíska dagblaðsins The Globe and Mail.

„Þetta var ekki beint hatur heldur frekar partur af þessari nýju íhaldshreyfingu þjóðernis og sjálfsmyndar sem einkennist frekar af óumburðarlyndi en hatri,“ segir Deschamps.

Lögreglan segir að Bissonette hafi verið einn að verki. Annar maður, sem handtekinn var eftir skotárásina, reyndist ekki hafa verið með honum í ráðum. Honum var sleppt úr haldi eftir yfirheyrslur og hefur nú stöðu vitnis í málinu.

Auk þess að myrða sex manns særði Bissonette á annan tug manna, þar af fimm alvarlega. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×