Erlent

Árásarmaðurinn á Orly var á eftirlitslista

Flugfarþegar sem voru fluttir úr flugstöðinni í morgun bíða eftir að hún opni aftur.
Flugfarþegar sem voru fluttir úr flugstöðinni í morgun bíða eftir að hún opni aftur. Vísir/EPA
Búið er að opna hluta Orly-flugvallar við París aftur eftir að maður sem reyndi að hrifsa skotvopn af hermanni var skotinn til bana þar í morgun. Maðurinn var á eftirlitslista yfir öfgafulla einstaklinga. Hann er sagður eiga langan sakaferil að baki.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir talsmanni franska hersins að maðurinn hafi reynt að hrifsa byssu af hermanni í „gríðarlega ofbeldisfullri árás“. Konan náði að halda í byssuna sína en tveir félagar hennar skutu manninn til bana.

Áður hafði árásarmaðurinn skotið á lögreglumenn sem stöðvuðu hann við umferðareftirlit norðan við París. Flúði hann af vettvangi og skildi bíl sinn eftir í úthverfi í suðurhluta borgarinnar. Þar er talið að hann hafi rænt bíl af konu með vopnavaldi. Sá bíll fannst síðar við Orly-flugvöll.

Lögreglan segir að maðurinn hafi verið 39 ára gamall. Hann hafi meðal annars hlotið dóma fyrir vopnuð rán.

Faðir mannsins og bróðir hafa verið færðir í varðhald en það er venjan þegar grunur leikur á hryðjuverkaárásum.

Uppákoman hefur raskað flugferðum til og frá Orly í dag. Búið er að opna vesturflugvallarbygginguna en suðurbyggingin þar sem maðurinn var skotinn til bana verður að líkindum lokuð allan daginn í dag. Þrátt fyrir að vesturbyggingin hafi verið opnuð hafa miklar tafir verið og mörgum flugferðum aflýst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×