Erlent

Árás í nafni sameiningarkröfu

guðsteinn bjarnason skrifar
Mark Lippert, sendiherra Bandaríkjanna í Suður-Kóreu, var fluttur á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir aðgerð.
Mark Lippert, sendiherra Bandaríkjanna í Suður-Kóreu, var fluttur á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir aðgerð. fréttablaðið/EPA
Maðurinn sem réðst vopnaður hnífi á Mark Lippert, sendiherra Bandaríkjanna í Suður-Kóreu, í gær hrópaði kröfu um að kóresku ríkin tvö sameinist. Jafnframt mótmælti hann sameiginlegum heræfingum Suður-Kóreu og Bandaríkjanna.

Árásarmaðurinn var sagður heita Kim Ki-jong og vera 55 ára gamall. Fyrir fimm árum reyndi hann að ráðast á sendiherra Japans í Suður-Kóreu, en var þá handtekinn og hlaut skilorðsbundinn dóm.

Nokkrum tímum eftir árásina fagnaði norðurkóreska ríkisfréttastofan árásinni, sagði hana hafa verið „réttláta refsingu fyrir bandaríska stríðsæsingamenn“ og endurspegla reiði þeirra Suður-Kóreumanna sem eru á móti sameiginlegum heræfingum með Bandaríkjaher.

Lippert særðist illa í andliti en var ekki í lífshættu. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir tveggja og hálfrar klukkustundar langa aðgerð. Sauma þurfti áttatíu spor til að loka sárinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×