Lífið

Áramótin kalla á glimmer

Í síðustu viku fékk Lífið Sigurlaugu Dröfn Bjarnadóttur, förðunarfræðing og eiganda Reykjavík Makeup School, til að sýna okkur réttu handtökin við jólaförðunina. Núna snýr hún aftur og sýnir fallega áramótaförðun sem einfalt er að líkja eftir. „Áramótin kalla alltaf á smá glimmer og því ákvað ég að þessu sinni að gera dæmigerða glamúr-förðun með smá glimmeri og dökkum vörum til að fullkomna lúkkið. Ég veit að „reglan“ er sú að ef maður setur dökkt á augun þá eigi maður aðeins að draga úr vörunum til að hafa augun meira áberandi en reglurnar má aðeins sveigja að mínu mati í förðunarheiminum. Það er líka bara ótrúlega flott að hafa mikið um augun og varir og leggja því bara áherslu á hvort tveggja, sérstaklega um áramótin,“ segir Sigurlaug, eða Silla eins og hún er kölluð. Silla byrjar alltaf á því að setja gott dagkrem á húðina og setur svo svokallaðan primer yfir en hann býr til góðan grunn fyrir farðann og gerir yfirborð húðarinnar fallegra.

„Ég notaði fljótandi farða sem heitir Liquid foundation. Ég nota svo alltaf yfir Wonder powder en það gefur svo fallegan ljóma. Ég setti svo minn uppáhaldskinnalit á hana sem heitir Coral Lace. Til þess að lýsa upp andlitið og móta notaði ég svo highligt, reflex cover undir augun og matt sólarpúður til þess að skyggja andlitið með. Allar þessar vörur sem ég tel upp þarna koma frá Make Up Store.“

Augnfarðinn undirstrikar fegurð augnanna og skiptir miklu máli að nota góða bursta en þeir skila bestu útkomunni. „Á augun notaði ég eyedust frá Inglot sem er nr. 22 beint á augnlokið, síðan skyggði ég með tveimur litum frá Make Up Store en þeir heita Louder og Cupol. Eftir það setti ég glimmer beint á augnlokið en ekki í skygginguna, glimmerið sem ég notaði heitir Nova og fæst í Make Up Store, ótrúlega flottur, bleikur litur,“ segir hún og bætir við að gott sé að nota augndropa til þess að festa glimmerið. „Þá setur þú burstann í lítinn dropa og síðan í glimmerið, þá festist það á augnlokinu. Svo eru til ýmsir vökvar til þess að festa glimmer frá hinum ýmsum merkjum en ég notaði Mixing liquid frá Make Up Store. Til þess að toppa svo augnförðunina og glamúr-lúkkið er alltaf flott að nota gerviaugnhár en hér notaði ég augnhár frá Tanya Burr sem heita Girls Night out.“

Varirnar eru svo rúsínan í pylsuendanum og er Silla óhrædd við að nota sterkan varalit með dökkri augnmálningu. „Ég mótaði varirnar með dökkum varablýanti og setti vel af honum inn á varirnar og svo notaði ég varalit frá Make Up Store yfir sem heitir Havana.“

Hárgreiðslan er hluti af heildinni og notaði Silla HH Simonsen járn sem heitir ROD 9. „Þetta bylgjujárn er ótrúlega heitt núna. Allt öðruvísi lúkk heldur en beauty-krullurnar og því fannst mér viðeigandi að nota það í áramótalúkkinu þar sem það er svona aðeins meira „töff“ lúkk.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×