Innlent

Áralöng deila um útleigu geymslu við Hringbraut

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Erjur nágrannanna eiga sér langa sögu.
Erjur nágrannanna eiga sér langa sögu. vísir/gva
Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík þess efnis að ekki verði lagðar dagsektir á fasteignareiganda að Hringbraut 73. Hann hefur leigt út geymslurými í kjallara sem herbergi.

Deilan hefur staðið yfir í um áratug. Í húsinu, sem er tveggja hæða, eru fjórar íbúðir og eiga tveir aðilar tvær íbúðir hvor um sig. Fólkið á neðri hæðinni hefur leigt út hluta geymslurýmisins en það er sameign. Eigendur efri hæðarinnar segja mikið ónæði stafa af þessu og vilja að útleigan hætti.

Álits áfrýjunarnefndar húsamála var leitað og skilaði hún því árið 2013. Taldi hún útleiguna heimila að fengnu leyfi byggingarfulltrúa. Það leyfi hefur hins vegar ekki fengist.

Eigendur efri hæðarinnar höfðuðu dómsmál árið 2014 og kröfðust þess að viðurkennt yrði að óheimilt væri að leigja geymsluna út að viðlögðum dagsektum. Því máli var vísað frá þar sem ákvörðun byggingarfulltrúa lá ekki fyrir.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar kemur fram að byggingarfulltrúi Reykjavíkur telur notkun kjallararýmisins ólögmæta. Í samskiptum hans og lögmanns eigenda efri hæðarinnar kemur hins vegar fram að embættið telji sig ekki fært um að fullyrða hver raunveruleg notkun þess sé. Af þeim sökum synjaði það áður álagningu dagsekta.

Nefndin taldi að embættið gæti rannsakað málið betur og felldi því hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×