Innlent

Ár og lækir í miklum vexti vegna hellirigningar

Gissur Sigurðsson skrifar
Lögreglan og Vegagerðin fylgjast með ástandinu og hvort vegir fari að skemmast út af öllu vatninu.
Lögreglan og Vegagerðin fylgjast með ástandinu og hvort vegir fari að skemmast út af öllu vatninu. vísir/villi
Það hellirigndi á sunnan- og suðaustanverðu landinu í alla nótt, einkum á svæðinu frá Mýrdalsjökli í vestri og austur til Hafnar í Hornafirði. Ár og lækir á þessu svæði eru í miklum vexti og varaði Veðurstofan fólk við því í gærkvöldi, að vöð yfir vatnsföll gætu verið varasöm.

Ekki hafa borist fregnir af vegarskemmdum en lögreglan og Vegagerðin fylgjast með ástandinu.

Mjög mikið rennsli er í ám víðast hvar á landinu. Af sautján virkum vatnamælum Veðurstofunnar sem senda upplýsingar inn á vefsíðuna, mælist mjög mikið rennsli í 15 ám, en venjulegt rennsli mælist nú aðeins í Lagarfljóti og Selá á Austfjörðum.

Víða var gott veður í öðrum landshlutum í nótt. Klukkan þrjú mældist til dæmis tæplega 13 stiga hiti á Akureyri í þurru og stilltu veðri. Áfram er víða spáð. rigningu, en þó ekki eins mikilli og undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×