Erlent

Ár frá sprengjuárásinni í Boston-maraþoninu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Frá minningarathöfn í fyrra.
Frá minningarathöfn í fyrra. vísir/afp
Í dag er liðið ár frá sprengjuárásinni í Boston-maraþoninu þar sem þrír týndu lífi og 264 særðust, margir hverjir mjög alvarlega. Atburðanna er minnst í Boston í dag og næstu daga en sjálft maraþonið fer fram á annan í páskum.

Aðalminningarathöfnin fer fram við Boylston-stræti, skammt frá staðnum þar sem ódæðið var framið, og þar mun Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, ávarpa fjöldann.

Dzhokar Tsarnaev, annar árásarmannanna, prýddi forsíðu Rolling Stone í fyrra og vakti það mikla reiði almennings.
Sprengjurnar voru heimatilbúnar og sprungu með tólf sekúndna millibili skammt frá endalínunni. Bræðurnir Dzhokhar og Tamerlan Tsarnaev voru fljótlega grunaðir um aðild að sprengingunum og þremur dögum eftir árásina skutu þeir lögreglumann á skólalóð MIT-háskólans, stálu bifreið og hófu skothríð á fleiri lögreglumenn.

Tamerlan særðist í skotbardaganum og varð á endanum undir bifreiðinni og lést samstundist. Dzhokhar var handtekinn degi síðar.

Öryggisgæsla vegna maraþonsins verður tvíefld í ár og munu rúmlega 3.500 lögreglumenn vera á vakt. Þá verða einhverjir þeirra óeinkennisklæddir, auk þess sem notast verður við fjölda málmleitartækja og þefhunda.

Réttarhöld hefjast yfir Dzhokhar Tsarnaev í nóvember en verjendur hans segja hann hafa verið beittan miklum þrýstingi frá eldri bróður sínum. Saksóknarar munu fara fram á dauðarefsingu.


Tengdar fréttir

Bræðurnir hefðu hugsanlega gert fleiri árásir

Talið er að bræðurnir sem grunaðir eru um að bera ábyrgð á sprengingunni í Boston maraþoninu hafi ætlað sér að gera fleiri árásir. Þetta segir Ed Davis, lögreglustjórinn í Boston.

Tsarnaev ákærður fyrir sprengingarnar í Boston

Hinn ungi Dzhokhar Tsarnaev, sem sprengdi þrjár sprengjur í Boston Maraþoninu ásamt bróður sínum, sem er látinn, hefur verið ákærður fyrir brot sín að því er BBC greinir frá á heimasíðu sinni.

Ástvinir þeirra sem fórust í Boston fagna handtökunni

Fjölskyldur þeirra sem fórust í sprengingunum í Boston á mánudaginn fögnuðu í nótt þegar ljóst var að Dzhokhar Tsarnaev, yngri bróðirinn sem stóð að árásunum, hafði verið handtekinn í Watertown, úthverfi Boston. Sá eldri var skotinn til bana í fyrrinótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×