Viðskipti innlent

Apple stefnir ríkinu til að fá tollum létt af iPod Touch

Apple-umboðið hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu vegna tollflokkunar á lófatölvunni iPod Touch. Tollstjóri flokkar tölvuna sem tónlistarspilara en ríkistollanefnd hefur viðurkennt að um lófatölvu sé að ræða þó að nefndin hnekki ekki ákvörðun tollstjóra um tollflokkun.

Tollar og vörugjöld á tónlistarspilara eru samtals 32,5 prósent en engin slík gjöld eru lögð á tölvur sem fluttar eru til landsins. Forsvarsmenn Apple líta svo á að flokka eigi iPod Touch sem tölvu en ekki afspilara. Þeir benda á að hægt sé að nota tækið til að taka myndir og myndbönd, vafra um netið, senda tölvupóst, nota samskiptaforrit, spila tölvuleiki, hringja í netsíma og fleira.

Afleiðingarnar eru þær að fjölmargir kaupa tölvuna annars staðar en á Íslandi, segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Félags atvinnurekenda, sem rekur málið fyrir Apple.

Páll Rúnar segir neytendur hin raunverulegu fórnarlömb í málinu. Ætli þeir að kaupa vöruna hér á landi þurfi þeir að greiða hærra verð en eðlilegt sé vegna tollflokkunarinnar. Þá tapi ríkissjóður á því að fólk kaupi tækin ekki hér á landi sökum hárra tolla og borgi í mörgum tilvikum ekki virðisaukaskatt við komuna til landsins.

Hann segir óumdeilt að tækið uppfylli öll skilyrði fyrir því að teljast lófatölva samkvæmt tollskrá. Tollstjóri beiti huglægu mati þegar hann flokki iPod Touch sem afspilara og sé byggt á því hvernig hann telji að tækið sé markaðssett.

„Tækninni fleygir áfram og nú er svo komið að jafnvel brauðristar eru til með mp3-spilara,“ segir Páll Rúnar.

„Spurningin er hvort tollstjóri myndi skilgreina það sem afspilara með brauðristunarmöguleika?“

- bj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×