Viðskipti erlent

Apple rannsakar eintak af iPhone 7 sem sprakk

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bandaríski tæknirisinn rannsakar nú eintak af iPhone 7 síma fyrirtækisins sem sprakk og gaf frá sér töluverðan reyk. Myndband af símanum gengur nú eins og eldur um sinu um netheima en eigandi símans, Brianna Olivas, deildi því á Twitter-síðu sína.

Í samtali við Mashable segir Olivas að daginn áður en atvikið hafi átt sér stað hafi hún lent í vandræðum með símann. Gat hún ekki kveikt á honum og fór hún þá með hann í Apple-verslun. Starfsmaður þar fór yfir símann en gat ekki komið auga á nein vandamál.

Daginn eftir kviknaði hins vegar í símanum í herbergi Olivas. Hún segir að kærasti sinn hafi tekið hann upp og hent honum inn á baðherberfi eftir að kviknaði í honum þar sem síminn sprakk.

Líkt og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan lagði reyk frá símanum og hulstrið utan um hann bráðnaði.

Olivas segir að hún hafi afhent Apple símann sem sé nú að rannsaka hann. Beðið er eftir niðurstöðu prófanna. Stutt er síðan helsti samkeppnisaðili Apple á símamarkaði, Samsung, lenti í miklum vandræðum vegna vandræða með Samsung Galaxy Note 7 síma fyrirtækisins, sem átti það til að springa, áður en honum var kippt af markaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×