Viðskipti erlent

Apple kynnir iPhone 6 í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple.
Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple. Vísir/AFP
Í dag mun Apple halda kynningu þar sem gert er ráð fyrir því að nýr snjallsími fyrirtækisins verði kynntur. Einnig er fastlega gert ráð fyrir því að Apple muni kynna nýjan snjallsíma sem og snjallúr eða armband sem geti meðal annars fylgst með heilsu notenda.

Þegar hafa nokkur fyrirtæki gefið út snjallúr, en þeim hefur ekki verið tekið vel á mörkuðum hingað til. „Fyrir okkur skiptir meira máli að gera þetta rétt, en að vera fyrstir,“ hefur AP fréttaveitan eftit Tim Cook, framkvæmdastjóra Apple. Kynningin fer fram í sama sal og Steve Jobs kynnti fyrstu Mac töluna til leiks fyrir 25 árum.

Kynning Apple mun hefjast klukkan fimm í dag, en hægt verður að fylgjast með henni á heimasíðu fyrirtækisins.

Eins og áður hefur fyrirtækið ekkert sagt til um hvað mun fram fara á kynningunni og hvaða vörur verði kynntar. Orðrómur um að hljómsveitin U2 muni flytja lag hefur verið á kreiki, sem og að Apple muni einnig kynna iPhone með stærri skjá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×