Erlent

AP: Nýtt ferðabann Trump mun beinast gegn ríkisborgurum sömu sjö ríkja og hið fyrra

atli ísleifsson skrifar
AP segir að í drögum að nýrri tilskipun beinist bannið að ríkisborgurum sömu sjö ríkja, þó að nokkrar breytingar hafi verið gerðar.
AP segir að í drögum að nýrri tilskipun beinist bannið að ríkisborgurum sömu sjö ríkja, þó að nokkrar breytingar hafi verið gerðar. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti mun á næstunni kynna nýja tilskipun um ferðabann, eftir að dómstólar felldu þá fyrri úr gildi fyrr í mánuðinum.

AP segir að í drögum að nýrri tilskipun beinist bannið að ríkisborgurum sömu sjö ríkja, þó að nokkrar breytingar hafi verið gerðar.

Fyrri ferðabannstilskipun Trump olli mikilli ringulreið á flugvöllum víða um heim. Ríkisborgurum sjö ríkja – Írans, Íraks, Líbíu, Sómalíu, Súdan, Sýrlands og Jemen – var þá neitað um komu til Bandaríkjanna, þrátt fyrir að búa yfir gildri vegabréfsáritun.

Allt frá því að dómstólar dæmdu að tilskipunin stæðist ekki bandarísk lög, hefur Trump verið skýr í þeirri afstöðu sinni að málinu væri ekki lokið.

Samkvæmt heimildum AP hafa þær breytingar nú gerðar að bannið muni ekki beinast gegn þeim sem hafa þegar fengið vegabréfsáritun samþykkta og þeim sem búa yfir tvöföldum ríkisborgararétti.

Þá eiga fulltrúar bandarískra yfirvalda ekki að beina sjónum sínum sérstaklega að og hafna umsóknum sýrlensks flóttafólks.


Tengdar fréttir

Vill nýja tilskipun um ferðabann

Donald Trump Bandaríkjaforseti íhugar nú aðra tilskipun sem meini íbúum ákveðinna landa að ferðast til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×