Erlent

Antonio Tajani er nýr forseti Evrópuþingsins

atli ísleifsson skrifar
Ítalski hægrimaðurinn og Evrópuþingmaðurinn Antonio Tajani var kjörinn nýr forseti Evrópuþingsins eftir atkvæðagreiðslu í þinginu í gær.

Tajani tekur við embættinu af Martin Schultz sem gegnt hefur embættinu forseta Evrópuþingsins frá árinu 2012, en tilkynnti fyrr í vetur að hann hugðist láta af embætti og snúa aftur í þýsku landsmálin þar sem þingkosningar fara þar fram í haust.

Tajani hafði betur gegn samlanda sínum, Gianni Pitella, sem var frambjóðandi þinghóps sósíalista, en í síðustu umferð atkvæðagreiðslunnar hlaut Tajani 351 atkvæði en Pitella 282.

Ítalinn var frambjóðandi Kristilegra demókrata (EPP) á þinginu en þinghópurinn er sá stærsti á þinginu. Hinn 63 ára Tajani hefur verið einn af varaforsetum þingins og átti áður sæti í framkvæmdastjórn ESB þar sem hann fór með málefni samgangna og iðnaðar.

Tajani er þó ekki óumdeildur þar sem hann hefur áður starfað náið með fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi.

Frambjóðandi þinghóps Frjálslyndra demókrata, Belginn Guy Verhofstadt, dró framboð sitt til baka og lýsti yfir stuðningi við Tajani, í tilraun til að koma í veg fyrir aukin áhrif andstæðinga Evrópusamrunans.

Í grein Evrópuvefnsins kemur fram að Evrópuþingið fari með löggjafarvald í ESB ásamt ráðherraráðinu. „Vægi þingsins í ákvarðanatöku hefur aukist stig af stigi, nú síðast með Lissabon-sáttmálanum. Samþykki þingsins þarf fyrir fjárlögum Evrópusambandsins og hefur Evrópuþingið nýtt sér völd sín á þessu sviði til að hafa áhrif á þá málaflokka sem hafa útgjöld í för með sér. Þingið gegnir einnig eftirlitshlutverki gagnvart öðrum stofnunum sambandsins og sinnir samskiptum við þjóðþing aðildarríkjanna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×