Innlent

Annasamt hjá þyrlum Landhelgisgæslunnar í dag

Birgir Örn Steinarsson skrifar
TF-GNÁ var send af stað um klukkan fimm í kvöld að sækja slasaðan mótorhjólamann.
TF-GNÁ var send af stað um klukkan fimm í kvöld að sækja slasaðan mótorhjólamann. Vísir/Anton
Nóg hefur verið að gera hjá Tf-LÍF í dag sem og Tf-GNA. Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa farið í þrjú útköll það sem af er degi.

Fyrsta útkallið tengdist ísbirninum sem var felldur á Skaga í nótt en í morgun sendi lögreglan á Blönduósi beiðni um að þyrlan skoðaði svæðið norður fyrir Skaga og suður að Sauðakróki til þess að athuga hvort ummerki væru um frekari ísbirni. Ekkert fannst og leitinni var hætt um miðjan dag.

Um klukkan hálf þrjú í dag barst Landhelgisgæslunni beiðni um að koma konu til aðstoðar sem slasast hafði í Landmannalaugum. Þyrlan kom á svæðið 40 mínútum síðar og höfðu þá björgunarsveitamenn, lögregla og sjúkraflutningamenn búið um konuna. Greiðlega gekk að flytja hana um borð og var konunni flogið á sjúkrahús í Reykjavík.

Um klukkan fimm í dag fór barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar aftur beiðni um hjálp en í þetta sinn var það til þess að koma manni til bjargar sem slasast hafði í mótorhjólaslysi á Kjalarvegi sunnan við Blöndulón. TF-Gna fór í loftið stuttu seinna til þess að sækja manninn til þess að koma honum undir læknishendur hið snarasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×