Sport

Annar Rússi fellur á lyfjaprófi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sergeeva er hér ásamt stöllu sinni í bobsleðakeppninni.
Sergeeva er hér ásamt stöllu sinni í bobsleðakeppninni. vísir/getty
Það gengur illa hjá Rússum að hrista af sér lyfjastimpilinn því annar rússneskur íþróttamaður er fallinn á lyfjaprófi á Vetrarólympíuleikunum í PyeongChang.

Hin þrítuga Nadezhda Sergeeva féll á lyfjaprófi að þessu sinni. Hún keppti á tveggja manna bobsleða og varð í tólfta sæti í sinni keppni á leikunum.

Í gær voru bronsverðlaun tekin af krullukappanum Alexander Krushelnitsky þar sem hann féll einnig á lyfjaprófi.

Rússar eru í banni frá Ólympíuleikunum þar sem þeir stóðu í skipulögðu lyfjasvindli á ÓL í Sotsjí fyrir fjórum árum síðan. Samt fengu 168 keppendur frá Rússlandi að taka þátt í leikunum í Suður-Kóreu.

Það er því afar neyðarlegt fyrir Alþjóða ólympíusambandið að tveir Rússar séu þegar fallnir á lyfjaprófi núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×