Erlent

Annar grænlensku stjórnarflokkanna krefst nýrra kosninga

Atli Ísleifsson skrifar
Aleqa hammond, formaður grænlensku landsstjórnarinnar.
Aleqa hammond, formaður grænlensku landsstjórnarinnar. Vísir/Valli
Grænlenski ríkisstjórnarflokkurinn Atassut hefur dregið sig úr ríkisstjórn Grænlands í kjölfar ásakana á hendur Alequ Hammond, formanns landsstjórnarinnar, um að hún hafi dregið sér fé úr opinberum sjóðum. Atassut krefst þess að boðað verði til kosninga.

Atassut og Siumut, flokkur Hammonds, hafa myndað saman ríkisstjórn en þingmenn Siumut eru ekki nægilega margir til að mynda einir meirihluta á þinginu.

Í frétt danska ríkissútvarpsins segir að fréttirnar hafi borist fljótlega eftir að þrír ráðherrar, tveir frá Siumut og einn frá Atassut, hafi ákveðið að segja af sér embætti.

Hammond óskaði fyrr í vikunni eftir leyfi frá störfum á meðan verið væri að rannsaka ásakanir um að hún hafi dregið sér fé.

Hammond er sökuð um að hafa dregið sér rúmlega 106 þúsund danskra króna, um tvær milljónir íslenskra króna, til einkanota í apríl 2013 en hún endurgreiddi fjárhæðina 8. september síðastliðinn.

Hammond á að hafa hafi notað peningana til að borga fyrir flugmiða, hótelgistingu og mat á veitingastöðum fyrir sig og fjölskyldu hennar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×