Erlent

Annar af árásarmönnunum hafði gengið með eftirlitsbúnað

Birgir Olgeirsson skrifar
Jacques Hamel hélt upp á fimmtíu ára starfsafmæli sitt árið 2008.
Jacques Hamel hélt upp á fimmtíu ára starfsafmæli sitt árið 2008. Vísir/AFP
Einn af mönnunum sem er grunaður um að hafa myrt prest í kirkju í Frakklandi í morgun var undir eftirliti yfirvalda. Haft er eftir saksóknaranum Francois Molinis á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC að hinn nítján ára gamli Adel Kermiche hafi verið handtekinn í tvígang í fyrra þegar hann reyndi að komast til Sýrlands. Hafði hann gengið með eftirlitsbúnað á sér eftir handtökurnar í fyrra.

Kermiche réðst inn í kirkjuna í Saint-Etienne-du-Rouvray, sem er úthverfi í Rouen, ásamt öðrum manni í miðri morgunmessu.

Þeir skáru prest á háls áður en þeir voru skotnir til bana á af lögreglumönnum. Þeir höfðu tekið fjóra gísla en einn þeirra er enn á sjúkrahúsi eftir að hafa hlotið alvarlega áverka.

Molins sagði mennina tvo hafa haft eftirlíkingu af sprengibúnaði með sér ásamt vopnum þegar þeir fóru inn í kirkjuna. Þeir beindu sjónum sínum að 84 ára gömlum presti að nafni Jacques Hamel. Nokkrir sem höfðu sótt messuna náðu að flýja og gera lögreglu viðvart.

Þrír þeirra sem teknir voru sem gísl voru notaðir sem hindrun til að koma í veg fyrir að lögreglan kæmist að árásarmönnunum. Árásarmennirnir slepptu loksins gíslunum og hlupu þá út úr kirkjuna öskrandi „Allahu Akbar“ áður en þeir voru skotnir til bana.

Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa nú þegar gefið út að mennirnir tveir hefðu verið hermann úr þeirra röðum.

Fréttastofa BBC hefur eftir nunnu að nafni Danielle, sem var á meðal þeirra sem voru inn í kirkjunni þegar ódæðið var framið, að mennirnir tveir hefðu neytt prestinn til að krjúpa fyrir framan þá. Presturinn reyndi að verja sig en var þá skorinn á háls.

„Þeir tóku þetta allt upp á myndband. Þeir fóru með einhverskonar prédikun við altarið á arabísku. Þetta var hryllilegt,“er haft eftir Danielle. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×