Handbolti

Annaðhvort gerum við þetta af krafti eða hættum þessu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sverre Jakobsson.
Sverre Jakobsson. Vísir/Stefán
Akureyri Handboltafélag er öruggt með sæti sitt í Olís-deild karla næsta vetur eftir sigur á HK í lokaumferðinni á mánudagskvöldið.

Breytingar verða á liðinu fyrir næsta tímabil en Bjarni Fritzson yfirgefur félagið og fer þar besti leikmaður liðsins og annar þjálfarinn. Maðurinn sem Akureyringar vilja fá til að þjálfa liðið er landsliðsmaðurinn SverreJakobsson.

„Það kemur í ljós síðar í vikunni með hann. Það eru viðræður í gangi. Við viljum að hann spili en hann er ekki alveg á því. Við höfum allavega áhuga á að fá hann í klúbbinn,“ segir Hlynur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Akureyrar Handboltafélags, við Fréttablaðið.

Akureyringar ætla sér að styrkja hópinn fyrir næsta tímabili og eru nöfn á lofti í þeirri umræðu á borð við Ragnar Jóhannsson, skyttu FH-inga, og Hreiðar Levy Guðmundsson.

„Ef Hreiðar er á leiðinni heim munum við allavega tala við hann en við erum með góðan markvörð sem vill vera áfram. Annars höfum við bara áhuga á öllum góðum leikmönnum.“

Stefnan er tekin á toppbaráttuna eftir tvö erfið tímabil. „Annaðhvort tökum við þátt í þessu af krafti á næsta ári eða hættum þessu. Það nennir enginn að standa í þessu rugli. Við erum búnir að sameina félögin en getum svo ekki verið með alvöru lið. Það er ekki boðlegt,“ segir Hlynur Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×