Innlent

Annað laust af gjörgæslu

Birgir Olgeirsson skrifar
Slysið varð á Reykjanesbraut við göngubrúna sem tengir Hvammahverfið og Ásahverfið í Hafnarfirði.
Slysið varð á Reykjanesbraut við göngubrúna sem tengir Hvammahverfið og Ásahverfið í Hafnarfirði. Vísir/Friðrik Þór
Annað þeirra sem slasaðist í alvarlegu umferðarslysi á Reykjanesbraut á mánudag hefur verið útskrifað af gjörgæsludeild Landspítalans. Um er að ræða slys sem varð þegar bíl var ekið fyrir lögregluhjól í forgangsakstri á Reykjanesbraut.

Aðdragandinn er sá að umferðarslys varð við Rósaselstorg nærri flugstöð Leifs Eiríkssonar í hádeginu á mánudag. Ákveðið var að flytja manneskju sem slasaðist alvarlega í því slysi á Landspítala Íslands í Reykjavík.

Lögreglan á Suðurnesjum fylgdi sjúkrabílnum þar til lögreglumaður á bifhjóli frá lögregluembættinu á höfuðborgarsvæðinu tók við og átti að fylgja sjúkrabílnum í forgangsakstri á Landspítalann.

Við göngubrú á Reykjanesbraut, sem tengir Hvammahverfið og Ásahverfið í Hafnarfirði, hafði myndast bílaröð til vesturs inn í Hafnarfjörð. Einn ökumaðurinn sem var í þeirri röð ætlaði sér að komast úr röðinni og beygði til vinstri en fór þá fyrir bifhjólið sem lögreglumaðurinn ók á töluverðri ferð í forgangsakstri.

Um er að ræða karl og konu á fertugsaldri en bæði voru þau flutt alvarlega slösuð á sjúkrahús. Bæði brotnuðu þau á nokkrum stöðum en eru ekki í lífshættu. Annað þeirra var útskrifað af gjörgæslu í gær.

Sá sem slasaðist alvarlega í slysinu við Rósaselstorg var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans þar sem hann var úrskurðaður látinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×