Handbolti

Anna Úrsúla ráðin aðstoðarþjálfari Gróttu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anna Úrsúla er mætt aftur á parketið.
Anna Úrsúla er mætt aftur á parketið. vísir/andri marinó
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari Gróttu í Olís-deild kvenna í handbolta. Hún tekur við starfinu af Karli Erlingssyni sem var látinn fara fyrr í mánuðinum.

Anna Úrsúla hjálpaði Gróttu að vinna Íslandsmeistaratitilinn 2015 og 2016 en dró sig í hlé eftir síðasta tímabil.

Hún sneri aftur á völlinn um helgina þegar Grótta tapaði 25-29 fyrir Val. Anna Úrsúla mun leika með Gróttu næstu tvö árin auk þess að gegna starfi aðstoðarþjálfara.

„Anna býr yfir gríðarlegri þekkingu á handbolta [og] hefur góða yfirsýn yfir leikinn. Ég er mjög ánægður með að hún haldi áfram með okkur, bæði sem aðstoðarþjálfari og leikmaður liðsins,“ er haft eftir Kára Garðarssyni, þjálfara Gróttu, á Facebook-síðu handknattleiksdeildar félagsins.

Gróttu hefur gengið illa það sem af er tímabili og situr í áttunda og neðsta sæti Olís-deildarinnar með aðeins tvö stig eftir sjö umferðir.

Næsti leikur Gróttu er gegn ÍBV á heimavelli á laugardaginn kemur.


Tengdar fréttir

Karl hættur hjá kvennaliði Gróttu

Karl Erlingsson verður ekki áfram aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara Gróttu í kvennahandboltanum en þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Handknattleiksdeild Gróttu.

Kemur Anna Úrsúla Íslandsmeisturunum til bjargar?

Íslandsmeistarar Gróttu í Olís-deild kvenna hafa tapað fimm af fyrstu sex leikjum sínum á tímabilinu og eru í næstneðsta sæti deildarinnar. Nú leita menn leiða á Seltjarnarnesinu til að koma liðinu aftur á rétt spor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×