Sport

Aníta þeirra Pólverja setti heimsmet og tók gullið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anita Wlodarczyk fagnar sigri.
Anita Wlodarczyk fagnar sigri. Vísir/Getty
Við Íslendingar eigum Anítu Hinriksdóttur á Ólympíuleikunum í Ríó en Pólverjar eiga líka sína Anítu og sú gerði eitthvað í dag á leikunum í Ríó sem aldrei hefur verið gert áður.

Anita Wlodarczyk tryggði sér Ólympíugull í sleggjukasti kvenna á ÓL í Ríó með því að kasta sleggjunni 82,29 metra.

Hún bætti með því eigið heimsmet frá 1. ágúst 2015 þegar hún kastaði 81.08. Þetta er í sjötta sinn sem Anita Wlodarczyk bætir heimsmetið í sleggjukasti.

Anita Wlodarczyk var annars í miklum ham í úrslitunum í sleggjukastinu og átti alls þrjú köst yfir 80 metrana en hún var fyrsta konan sem náði að koma sleggjunni yfir 80 metrana.

Þriðja lengsta kast Anitu Wlodarczyk í keppninni í dag hefði líka fært henni gullverðlaunin. Zhang Wenxiu frá Kína (76,75 metrar) fékk silfur og Sophie Hitchon frá Bretlandi tók bronsverðlaunin en hún setti nýtt landsmet með því að kasta 75,54 metra.

Anita Wlodarczyk vann silfur í London fyrir fjórum árum síðan en þá vann Tatyana Lysenko frá Rússlandi gul metrarlið.

Anita Wlodarczyk er nú ríkjandi Ólympíumeistari (Ríó 2016), heimsmeistari (Peking 2015) og Evrópumeistari (Amsterdam 2016). Hún hefur líka unnið gullið á fjórum stórmótum í röð eða öllum mótum frá og með EM í Zürich 2014.

Anita Wlodarczyk og heimsmetið.Vísir/Getty
Anita Wlodarczyk.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×