Sport

Aníta og Hlynur keppa fyrir Ísland á EM í Belgrad

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aníta Hinriksdóttir í hlaupinu á RIG.
Aníta Hinriksdóttir í hlaupinu á RIG. vísir/anton brink
Aníta Hinriksdóttir og Hlynur Andrésson úr ÍR verða fulltrúar Íslands á Evrópumeistaramótinu innanhúss í frjálsíþróttum sem fer fram í Belgrad í Serbíu 3.-5. mars.

Stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands hefur samþykkt val íþrótta- og afreksnefndar sambandsins um val á keppendum en þetta kemur fram á vef FRÍ. Aníta keppir í 800 metra hlaupi en Hlynur í 3.000 metra hlaupi.

Aníta var annar af tveimur Íslendingum sem náði lágmarki á leikana en hin var spretthlauparinn Arna Stefanía Guðmundsdóttir úr FH sem getur ekki tekið þátt vegna meiðsla.

Hlynur náði ekki lágmarki en stjórn FRÍ ákvað að nýta sér boð um að senda karl til þátttöku þrátt fyrir að enginn íslenskur karlmaður náði lágmarki. Hann er sá sem er næstur lágmarki, að því fram kemur á vef Frjálsíþróttsambandsins, en aðeins munar einu prósenti.

Hlynur Andrésson er 3.000 metra hlaupari frá Vestmannaeyjum sem æfir og keppir með Eastern Michigan-háskolanum í Bandaríkjunum. Hann hefur náð góðum árangri í millivegalengdarhlaupum undanfarin misseri og sett tvö Íslandsmet innanhúss, annað þeirra í 3.000 metra hlaupi.

Aníta Hinriksdóttir keppti í fyrsta sinn á EM innanhúss í Prag í Tékklandi fyrir tveimur árum en þar hafnaði hún í fimmta sæti er hún hljóp á 2:02,74 mínútum.

Aníta byrjar árið vel en hún vann 800 metra hlaupið á Reykjavíkurleikunum þar sem hún setti Íslandsmet innanhúss. Hún hljóp á 2:01,18 mínútum en gamla metið hennar var 2:01,56 mínútur. Þetta var í sjöunda skiptið sem hún setur met í sinni sterkustu grein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×