Sport

Aníta keppir í undanúrslitum klukkan 16.38

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir sést hér í hlaupinu í gær.
Aníta Hinriksdóttir sést hér í hlaupinu í gær. Vísir/Getty
Aníta Hinriksdóttir keppir í dag í undanúrslitum á Evrópumeistaramótinu í frjálsum í Zürich í Sviss en hún tryggði sér sætið með flottu hlaupi í gær þar sem hún náði sínum besta tíma á árinu.

Aníta verður á fyrstu braut í fyrri riðli og á hann að hefjast klukkan 18.38 eða klukkan 16.38 á íslenskum tíma. Þrjár fyrstu í hvorum riðli komast í úrslit sem og þær tvær sem ná bestu tíma af þeim sem eftir standa.

Aníta er í riðlinum sem er sá veikari á blaði en á móti kemur að þær sem hlaupa í seinni riðlinum vita hvaða tími nægir til að komast áfram.

„Ákaflega stoltur af frammistöðu Anítu í dag. Fyrsta utanhússstórmótið í fullorðinsflokki. Í mörgum tilvikum að glíma við þrautreynda hlaupara - hún er yngst og reyndar eru þær bara tvær í unglingaflokki hér í 800 (Aníta var jú eini Evrópubúinn sem komst í úrslit á HM unglinga). Aníta var með 23. besta árangur ársins en náði að komast í hóp þeirra 16 sem keppa í undanúrslitum á morgun. Vel gert hjá henni og gaman að fá að hlaupa aftur á morgun í frábærri stemmingu á Letzigrund vellinum," skrifaði þjálfari hennar Gunnar Páll Jóakimsson inn á fésbókina.

Aníta Hinriksdóttir kom í mark í gær á 2:02,12 mínútum sem var tíundi besti tíminn í undanrásunum. Hlaupið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. Hún þarf að bæta sig um tvö sæti til þessa að tryggja sér sæti í úrslitahlaupinu sem fer fram á laugardaginn. 

Það verður hægt að fylgjast með hlaupinu í beinni útsendingu hér inn á Vísi á eftir en útsending frá seinni hluta dagsins hefst klukkan 15.15 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×