Sport

Aníta: Fór of hægt af stað

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalnum skrifar
Aníta var lengi vel með forystu í hlaupinu.
Aníta var lengi vel með forystu í hlaupinu. vísir/pjetur
Aníta Hinriksdóttir, hlaupakona úr ÍR, varð að gera sér 2. sætið að góðu í 800 metra hlaupi á 16. Smáþjóðaleikunum í dag.

"Þetta er vissulega svolítið svekkjandi á heimavelli," sagði Aníta sem kom í mark á tímanum 2:09,10 mínútum en Smáþjóðaleikmet hennar, sem hún setti í Lúxemborg fyrir tveimur árum, er 2:04,60 mínútur.

Charline Mathias frá Lúxemborg kom fyrst í mark í hlaupinu í dag á tímanum 2:08,61 mínútum. Natalia Evangelidou frá Kýpur fékk bronsverðlaun en hún hljóp á tímanum 2:09,56. Aníta segir þær þrjá vera í ákveðnum sérflokki.

"Við erum þrjár í ákveðnum klassa fyrir ofan hinar og þessar tvær eru mjög sterkar, þannig að maður var ekkert að vanmeta þær.

"Ég gerði smá mistök í hlaupinu. Það var vindur en maður er vanur að æfa og keppa í þessu og það hefur gengið vel.

"Ég gerði mistök með því að fara of hægt af stað sem er önnur taktík en ég er vön. Ég hefði bara átt að keyra upp hraðann í byrjun.

"Það kom smá hik á okkur þegar við fórum allar inn á fyrstu brautina saman - hver átti að leiða? Þetta var orðið alltof hægt og ég var ekki nógu grimm. Ég myndi að þetta væri frekar misheppnað hlaup en hinar tvær eru mjög sterkar."

Aníta hefur ekki lokið leik á Smáþjóðaleikunum en hún á eftir að keppa í 1500 metra hlaupi á fimmtudaginn og 4x400 metra boðhlaupi á laugardaginn.

"Eftir leikana reyni ég að æfa og svo er það Evrópubikarkeppnin um miðjan júní," sagði Aníta að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×