Viðskipti innlent

Angus Deaton hlýtur Nóbelsverðlaunin í hagfræði

ingvar haraldsson skrifar
Deaton ræddi við blaðamenn í gegnum síma í morgun.
Deaton ræddi við blaðamenn í gegnum síma í morgun. vísir/epa
Angus Deaton, skoskur prófessor í hagfræði við Princeton háskóla í Bandaríkjunum, hlýtur Nóbelsverðlaunin í hagfræði þetta árið. Deaton er 69 ára og kenndi áður við Cambridge og Bristol háskóla í Bretlandi.

Hann fær verðlaunin fyrir rannsóknir á á neyslu, fátækt og velferð samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Nóbelsverðlaunanna. Deton hefur oft verið orðaður við verðlaunin undanfarin árin.

Deaton er helst þekktur fyrir afrek á sviði rekstarhagfræði, þá sérstaklega rannsóknir á vali einstakra neytenda og hvernig þær tengjast heildarstærðum í hagkerfinu að því er New York Times greinir frá.

Nóbelsnefndin gaf út að Deaton fengi verðlaunin fyrir svör við þremur spurningum: Hvernig neytendur dreifa neyslu sinni milli mismunandi vara, hversu mikið af tekjum þjóðfélags er varið í sparnað og hve mikið er eytt í neyslu og hvernig er best að mæla og greina velferð og fátækt.

Verðlaunin eru afhent nú þegar Evrópa tekst á við mesta flóttamannavanda frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Deaton talaði í gegnum síma á blaðamannafundi þar sem verðlaunin voru kynnt í morgun. Hann sagði að aldarlöng þróun hefði skapað bil milli ríkari og fátækari landa.

Íbúar fátækari landa vildu lifa betra lífi og það væri að skapa mikinn þrýsting á mörkin milli ríkari og fátækari landa. Hann sagðist þó ekki vera viss um að skilja það myndi leiða til lausnar á vandamálum sem Evrópa er nú að takast á við.

Deaton hlýtur 8 milljónir sænskra króna, jafnvirði 122 milljóna króna í verðlaunafé. 

Hér að neðan má sjá myndbönd frá blaðamannafundinum í morgun þar sem rætt var við Deaton og útskýringu á framlagi hans til hagfræðinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×