Enski boltinn

Anfield verður stækkaður árið 2016

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Svona liti Anfield út eftir breytingarnar.
Svona liti Anfield út eftir breytingarnar. Mynd/Heimasíða Liverpool
Forráðamenn Liverpool hafa tilkynnt áætlanir um að stækka við Anfield-leikvanginn, heimavöll félagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Völlurinn tekur í dag 45.500 manns í sæti en áætlað er að hann muni taka 59 þúsund áhorfendur eftir breytingarnar.

Þrjár nýjar hæðir verða byggðar við aðalstúkuna, Main Stand, og einnig er áætlað að stækka við Anfield Road Stand. Hluti af aðgerðunum verður að reisa minningarvarða um þá 96 sem létust í Hillsborough-slysinu fyrir 25 árum síðan.

Ákveðið var í október árið 2012 að byggja frekar við Anfield fremur en að reisa nýjan leikvang á Stanley Park-svæðinu.

Viðræður standa nú yfir við fasteignaeigendur í grennd við Anfield og ganga vel að sögn forráðamanna Liverpool. Áætlað er að fullgera byggingaráætlun í sumar og leggja hana inn á borð borgaryfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×