Golf

Andy Sullivan efstur í Dubai | McIlroy ekki langt undan

Rory slær inn á 18. holu á öðrum hring í nótt.
Rory slær inn á 18. holu á öðrum hring í nótt. Getty
Englendingurinn Andy Sullivan leiðir þegar að Dubai World Tour meistaramótið er hálfnað en hann hefur leikið hringina tvo á Jumeirah velinum á tólf undir pari.

Sullivan á eitt högg á næsta mann sem er Argentínumaðurinn Emiliano Grillo á 11 höggum undir pari en Patrick Reed kemur þar á eftir á níu undir.

Þá er Rory McIlroy einnig í toppbaráttunni en hann er á átta höggum undir pari eftir að hafa leikið báða hringina á 68 höggum eða fjórum undir.

Dubai World Tour mótið er það síðasta á tímabilinu á Evrópumótaröðinni en aðeins 60 stigahæstu kylfingar hennar eru með þátttökurétt um helgina.

Það sést á skorinu en 44 af 60 keppendum eru undir pari eftir tvo hringi, sem er þó ekki raunin hjá Henrik Stenson sem hefur sigrað síðustu tvö ár.

Hann er í 55. sæti á tveimur yfir pari og möguleikarnir á því að verja titilinn á ný því úr sögunni.

Á meðan að bestu kylfingar Evrópumótaraðarinnar berjast í Dubai fer einnig fram mót á PGA-mótaröðinni en RSM Classic fram í Georgíuríki í Bandaríkjunum.

Þar leiðir heimamaðurinn Kevin Kisner eftir fyrsta hring en bæði mótin verða í beinni útsendingu á Golfstöðinni alla helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×