Innlent

Andrea Ósk hittir bjargvætt sinn um helgina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Andrea Ósk Frímannsdóttir og sonur hennar, Darri Þór, fjögurra mánaða.
Andrea Ósk Frímannsdóttir og sonur hennar, Darri Þór, fjögurra mánaða. Mynd/Facebook/Friðrik Þór
„Hann hafði bara samband við mig,“ segir Andrea Ósk Frímannsdóttir, ungur ökumaður sem lenti í heldur óþægilegu atviki í gær þegar kviknaði í bíl hennar. Andrea hafði óskað eftir því að komast í samband við karlmann sem kom henni til aðstoðar.

Maðurinn, Jón Einarsson að nafni, kom auga á að kviknað væri í bíl Andreu á ljósunum við Breiðholtsbraut. Andrea var á ferðinni með fjögurra mánaða gamlan son sinn og náði að rykkja honum úr bílnum. Á sama tíma náði Jón að bjarga barnavagni og fleiri verðmætum úr bílnum. Skömmu síðar var kominn upp mikill eldur í bílnum.

Í samtali við Vísi í gær sagðist Andrea endilega vilja ná tali af Jóni til þess að þakka honum almennilega fyrir að hafa hjálpað sér.

„Maður vill líka þakka þeim fyrir þegar maður er kominn úr þessari geðshræringu sem ég var í þegar þetta gerðist,“ sagði Andrea.

Jón virðist hafa orðið var við þetta og hafði samband við Andreu í dag. Ætla þau að reyna að hittast um helgina til að ræða saman.


Tengdar fréttir

Kviknaði í bíl á Breiðholtsbraut

Tilkynning um eld í bíl á Breiðholtsbraut barst slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um klukkan hálfeitt í dag en kona og barn voru í bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×