Innlent

Andlát: Valdimar K. Jónsson

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Valdimar K. Jónsson.
Valdimar K. Jónsson.
Valdimar K. Jónsson, vélaverkfræðingur og fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands lést þann 5. maí á hjartadeild Landspítalans.  Valdimar var fæddur í Hnífsdal þann 20. ágúst 1934, sonur hjónanna Jóns Kristjánssonar trésmíðameistari og Þorbjargar Valdimarsdóttur húsmóðir.

Valdimar útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri 1954. Lauk fyrrihlutaprófi í verkfræði frá HÍ 1957.  Prófi í vélaverkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole 1960 og Ph. D frá University of Minnesota 1965.  Hann hóf starfsferil sinn hjá Regnecentralen í Kaupmannahöfn og hjá Raforkumálaskrifstofunni í Reykjavík 1960 en sama ár varð hann aðstoðarkennari og rannsóknarmaður hjá University of Minnesota og gegndi þeim störfum til ársins 1965.  Árið 1965 gegndi hann stöðu lektors við Imperial College of Science and Technology í London.  Árið 1969 varð hann prófessor við Pennsylvania State University í Bandaríkjunum til ársins 1972 þegar hann tók við starfi prófessors við Verkfræði- og raunvísindadeild, Háskóla Íslands sem hann gegndi þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 2004.

Valdimar var formaður Bandalags háskólamanna 1978 til 1982 og einnig formaður Veitustofnana Reykjavíkurborgar sömu ár. Valdimar var forseti verkfræðideildar HÍ og í Háskólaráði 1985 til 1989.   Hann sinnti ýmsum trúnaðarstöfum fyrir Framsóknarflokkinn m.a. sem varaborgarfulltrúi í Reykjavík 1978 til 1982.   Valdimar kom að stofnun Reykjavíkurlistans 1994 og af mörgum verið kallaður guðfaðir hans.   Valdimar hafði umsjón með kælingu hraunsins í Heimaey árið 1973 sem m.a. varð til þess að bjarga innsiglingunni í höfnina í Vestmannaeyjum.  Hann sinnti ýmsum ráðgjafaverkefnum í orkugeiranum og á fleiri sviðum m.a. við undirbúning virkjananna á Nesjavöllum og Hellisheiði. 

Valdimar kom að stofnun Endurmenntunar Háskóla Íslands 1983 og var einnig formaður byggingarnefndar Félagsstofnunar stúdenta um nýja hjónagarða 1986 til 1990 og síðar meir formaður byggingarnefndar nýja stúdentahverfisins við Eggertsgötu frá 1991.  Á eftirlaunaárum sínum tók Valdimar þátt í ýmsum nýsköpunarverkefnum.  Valdimar var kjörinn heiðursdoktor frá Háskólanum í Lundi Svíþjóð árið 1998 og sæmdur riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2002.

Valdimar var giftur Guðrúnu Sigmundsdóttur, sem lést fyrir fjórum árum.  Þau eignuðust fjögur börn; Þyrí matvælafræðing, Örn viðskiptafræðing, Vilborg  Erlu lyfjatækni og Jón Rafn fasteignasala.

Barnabörnin eru 12 og barnabarnabörn 16.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×