Innlent

Andlát: Kári Eiríksson listmálari

Ritstjórn skrifar
Kári Eiríksson listmálari lést 1. maí síðastliðinn.
Kári Eiríksson listmálari lést 1. maí síðastliðinn. Vísir/Aðsend
Kári Eiríksson, listmálari, er látinn 81 eins árs að aldri en hann lést á sjúkrahúsinu á Ísafirði þann 1. maí síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var fjölmiðlum rétt í þessu.

„Kári fædd­ist á Þingeyri í Dýrafirði þann 13. febrú­ar árið 1935. For­eldr­ar hans voru Eiríkur Þorsteinsson, kaupfélagsstjóri og alþingismaður og Anna Guðmundsdóttir hús­freyja. 

Kári stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1953-54, Listaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1957, Listaakademíunni í Flórens á árunum 1957-59 og í Róm 1960-61.

Kári hélt fyrstu einkasýningu sína í Casa di Dante í Flórens árið 1958 og fyrsta einkasýning hér heima var í Listamannaskálanum ári síðar eða 1959. Frá þeim tíma hefur hann haldið fjöldamargar stórar einkasýningar hérlendis og erlendis, en þær umfangsmestu voru á árunum 1973, 1979 og 1986 á Kjarvalsstöðum.

Kári vann að ýmsum sérverkefnum erlendis, meðal annars að stórri veggmynd í aðdraganda Ólympíuleikanna í Mexíkóborg en þangað fluttist hann með fjölskylduna á árunum 1967-1968. Margar sýningar Kára hlutu mikla athygli almennings og oftar en ekki seldust sýningar hans upp.

Fyrrverandi eiginkona Kára er Sigurbjörg Stefánsdóttir, fædd árið 1935, en sonur þeirra er Kári Kárason fæddur árið 1965.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×