Innlent

Andi Snæfellsness – Auðlind til sóknar hlaut Skipulagsverðlaunin

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dómnefnd taldi svæðisskipulagið afar vel unnið og að það myndi nýtast vel til aðalskipulagsgerðar fyrir sveitarfélögin á Snæfellsnesi.
Dómnefnd taldi svæðisskipulagið afar vel unnið og að það myndi nýtast vel til aðalskipulagsgerðar fyrir sveitarfélögin á Snæfellsnesi.
Svæðisskipulag Snæfellsness 2014-2026, Andi Snæfellsness – Auðlind til sóknar, hlaut Skipulagsverðlaunin 2014 sem afhent voru í gær. Það er Skipulagsfræðingafélag Íslands sem stendur að verðlaununum og fór verðlaunaafhendingin fram í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi, Snæfellsbær, Stykkishólmur, Grundarfjarðarbær, Eyja-og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit, standa að svæðisskipulaginu. Svæðisskipulagið var unnið af ráðgjafafyrirtækinu Alta ehf.

Dómnefnd taldi svæðisskipulagið afar vel unnið og að það myndi nýtast vel til aðalskipulagsgerðar fyrir sveitarfélögin á Snæfellsnesi.

Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars:

„Svæðisskipulagið fellur vel að áherslu verðlaunaveitingarinnar í ár sem er skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og samþættingu hennar við náttúru og byggt umhverfi. [...] Svæðisskipulag Snæfellsness er langtíma stefnumarkandi skipulagsáætlun um eflingu samfélagsins á Snæfellsnesi á grunni staðaranda og auðlinda svæðisins.“

Dómnefnd Skipulagsverðlaunanna 2014 skipuðu þau Erla Margrét Gunnarsdóttir, formaður, tilnefnd afSkipulagsfræðingafélagi Íslands, Bergljót S. Einarsdóttir tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands, Björn Jóhannsson tilnefndur af Ferðamálastofu, Gísli Gíslason tilnefndur af Félagi Íslenskra landslagsarkitekta, Hjálmar Sveinsson tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitafélaga og Þórarinn Hjaltason tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×