Enski boltinn

Ander Herrera: Manchester United er að búa til frábært lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ander Herrera og félagar fagna hér sigri í undanúrslitaleik enska bikarsins.
Ander Herrera og félagar fagna hér sigri í undanúrslitaleik enska bikarsins. Vísir/Getty
Ander Herrera, miðjumaður Manchester United, er sannfærður að Louis van Gaal sé að búa til frábært lið hjá Manchester United en margir ungir leikmenn hafa verið að koma upp í aðalliðið.

Manchester United hefur unnið 10 af síðustu 15 leikjum sínum í öllum keppnum, er komið í bikarúrslitaleikinn og er enn í baráttu um sæti í Meistaradeildinni.

„Við höfum sterka tilfinningu fyrir því undanfarna mánuði að hér sé að verða til frábært fótboltalið. Það er fullt af ungum leikmönnum að koma inn og það er að mótast frábær blanda milli þeirra og reyndari leikmanna," sagði Ander Herrera í viðtölum við breska fjölmiðla en Reuters segir frá.

„Þessir strákar hafa hraða og þeir hafa hugmyndaflug. Ég er ekki bara að tala um þá Anthony (Martial) og Marcus (Rashford) því við erum líka með menn eins og Jesse (Lingard) og Memphis (Depay)," sagði Ander Herrera.

„Þessir ungu leikmenn geta hjálpað til að gera Manchester United að frábæru liði en ég vil þó ekki horfa of langt fram í tímann. Við erum með flott lið í dag og eigum góðan möguleika á að vinna titil. Við fáum núna tækifæri til að vinna Leicester á heimavelli og halda áfram baráttunni fyrir eitt af fjórum efstu sætunum," sagði Herrera.

Leicester City heimsækir Manchester United á Old Trafford um helgina og getur tryggt sér Englandsmeistaratitilinn með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×