Erlent

Amma kyrkti gaupu til dauða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Talið er að gaupan hafi verið með hundaæði.
Talið er að gaupan hafi verið með hundaæði. Alamy
Bandarísk kona kyrkti gaupu til dauða eftir að dýrið hafði ráðist á hana fyrir utan heimili hennar í Georgíu fyrr í þessum mánuði.

Fram kemur í þarlendum miðlum að gaupan hafi stokkið á konuna er hún reyndi að taka mynd af dýrinu.  „Geltið í hundi nágrannans vakti athygli mína,“ er haft eftir DeDe Phillips á vef Athens-Banner Herald. „Þá sá ég köttinn og tók mynd. Hann tók tvö skref og var því næst ofan á mér,“ segir Phillips sem telur að gaupan hafi reynt að ráðast á andlit hennar.

Hún segist hafa nokkra reynslu af gaupum. Pabbi hennar hafi um árabil fangað dýrin, sem eru ekki sjaldséð sjón í sýslunni. Því hafi hún vitað hvernig best væri að kljást við gaupuna.

„Ég hugsaði með mér: „Ekki í dag.“ Það var ekki fræðilegur möguleiki að ég myndi deyja,“ er haft eftir Phillips. Hún greip um háls gaupunnar og sleppti ekki sama hvað dýrið streittist á móti. Hún segist ekki hafa þorað að kalla á hjálp því að fimm ára gamalt barnabarn hennar var inni í húsinu.

Þegar gaupan lyppaðist að lokum niður hafi hún hins vegar beðið dóttur sína um að hringja á neyðarlínuna. Þá hafi sonur hennar komið hlaupandi með byssu en Phillips segist hafa bannað honum að hleypa af, því dýrið lá enn ofan á henni.

Sonurinn hafi þá náð í hníf og stungið gaupuna fjórum til fimm sinnum. Phillips telur hins vegar nokkuð ljóst að dýrið hafi verið dautt áður en það var stungið.

Gaupan er sögð hafa brotið fingur Phillips, klórað hana og bitið í hendur, bringu og fætur. Óttast var að gaupan hafi þjáðst af hundaæði og var Philipps því sprautuð með mótefni á slysadeild. Ekki er gert ráð fyrir öðru en að konan muni ná sér að fullu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×