Innlent

Alvarleg vísbending um kennaraskort

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Formaður Félags leikskólakennara segir að byrjunarlaun leikskólakennara séu í dag 470 þúsund krónur.
Formaður Félags leikskólakennara segir að byrjunarlaun leikskólakennara séu í dag 470 þúsund krónur. vísir/vilhelm
Um þriðjungur stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í leikskólum er nú skipaður leikskólakennurum en lög kveða á um að þeir skuli að lágmarki vera tveir af hverjum þremur. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem áhyggjum er lýst af yfirvofandi kennaraskorti.

Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara Fréttablaðið/Vilhelm
Í skýrslunni kemur fram að í desember 2015 hafi 1.758 menntaðir leikskólakennarar starfað í leikskólum en 2.992 leyfisbréf hafi verið gefin út til þeirra frá árinu 2009.

Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir áhugavert að fá upplýsingar um það hve stórt hlutfall menntaðra leikskólakennara starfi ekki við fag sitt.

Haraldur segir skref hafa verið stigin fram á við í kjarasamningum. Hins vegar telji fólk í samfélaginu að laun leikskólakennara séu í raun lægri en þau eru vegna þess að á leikskólum starfi fjölbreyttur hópur fólks og sumir þeirra séu ómenntaðir starfsmenn. Hann bendir á að byrjunarlaun leikskólakennara séu núna um 470 þúsund krónur og um 490 þúsund ef viðkomandi sinnir deildarstjórn.

Haraldur segir hins vegar að stíga þurfi fleiri skref til að hækka laun kennara. „Það kemur bersýnilega í ljós að sveitarfélög greiða almennt sérfræðingum lægri laun en ríkið,“ segir Haraldur. Sveitarfélögin í heild þurfi að skoða það sín megin hvers vegna svo er. Hann bendir á að laun sérfræðinga á opinberum markaði séu svo aftur lægri en laun sérfræðinga á almennum markaði. Nú þegar búið er að breyta lífeyrissjóðskerfinu og jafna muninn á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum markaði þurfi líka að jafna launin.

Ríkisendurskoðun segir í áðurnefndri skýrslu að kennaraskorturinn verði ekki eingöngu leystur með fjölgun kennaranema. Mikilvægt sé að laða menntaða kennara, ekki síst hina yngri, til starfa við skólana og búa þannig um hnútana að þeir endist í starfi. Þar með nýtist sú fjárfesting sem felst í menntun þeirra væntanlega best. „Sú fjárfesting jókst verulega þegar kennaranám var lengt úr þremur árum í fimm árið 2009 en vísbendingar eru um að sú breyting hafi dregið úr aðsókn í námið,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir lengra nám ekki vera stærsta vandamálið. „Það eru um það bil tíu þúsund kennarar með grunnskólakennararéttindi. Það er ekki nema helmingurinn sem kýs að starfa sem kennarar og langstærstur hluti þeirra fór í gegnum þriggja ára nám. Þannig að vandinn er ekki fimm ára námið. Það er alveg ljóst.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×