Skoðun

Alvarleg mistök löggjafans

Grétar Jónasson skrifar
Tíu ár eru liðin síðan umfangsmikil breyting var gerð á lögum um sölu fasteigna. Ný heildarlöggjöf var sett sem hefur að geyma eina stærstu neytendalöggjöf landsins. Meginefni laganna var vernd neytenda í almennt stærstu viðskiptum fólks á lífsleiðinni.

Lögin áttu að fela í sér ríkar réttarbætur og neytendur m.a. að geta treyst að milligöngunni sinntu einungis einstaklingar sem hið opinbera hefði veitt réttindi á grundvelli margháttaðra strangra krafna, þ.e. hinn löggilti fasteignasali. Nú tíu árum síðar hefur flest það sem löggjafinn ætlaði að tryggja farið úrskeiðis. Alvarlegum mistökum löggjafans má þar um kenna, en galopinn og óljós lagatexti hefur valdið ríkri óvissu um hvað sé gildandi réttur. Sé líkindamáli beitt hefur hljóð og mynd engan veginn farið saman við framkvæmd laganna undanfarin 10 ár.

Vegna óskýrleika hafa eftirlitsaðilar lítið getað tekið á málum er varðar grundvallarþætti þeirrar neytendaverndar er lögin áttu að tryggja. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem samið var á árinu 2007 sem illu heilli er síst betra en gildandi lög. Þar er lagt til að felld verði brott skylda fasteignasala sem opinberra sýslunarmanna að fylgja ströngum siðareglum gagnvart neytendum. Auk þess er lagt til að lokað verði á ferli sem leitt hefur til að öll alvarlegustu svik gagnvart neytendum sl. 10 ár hafa komist upp!

Fennt hefur í sporin og lærdómur sem draga átti af hruninu, m.a. af skýrslu rannsóknarnefndar og nefndar um siðferði, virðist gleymdur.

Félag fasteignasala, Neytendasamtökin og Húseigendafélagið hafa í sameiningu bent á alvarlega ágalla frumvarpsins með engum árangri.

Þegar svo illa hefur tekist til sem raun ber vitni við setningu grundvallarlaga um fasteignaviðskipti í landinu ætti hver þingmaður að staldra við og gæta að því að bætt sé úr. Fólk á rétt á að því sé tryggð örugg umgjörð í almennt stærstu viðskiptum sínum á lífsleiðinni, því fer hins vegar fjarri í frumvarpinu.




Skoðun

Sjá meira


×