Handbolti

Alþjóðahandboltasambandið lofaði Áströlum sæti í forkeppni ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ástralir í leik á móti Íslandi á HM 2007.
Ástralir í leik á móti Íslandi á HM 2007. Vísir/AFP
Ástralska handboltalandsliðinu var sparkað út á HM í handbolta í Katar síðasta sumar til að búa til pláss fyrir Þýskaland en Alþjóðahandboltasambandið hefur lofað því að koma til móts við Ástrali þegar kemur að því að vinna sér sæti á ÓL í Ríó 2016.

Ísland og Sádí-Arabía fengu bæði HM-sæti gefins á föstudaginn og var þá enn á ný gengið framhjá Áströlum sem töldu að þeir höfðu unnið sér sæti á HM eftir sigur í undankeppni Eyjaálfu.

„IHF lofaði okkur því að við fengjum að taka þátt í forkeppni ÓL. Við höfum beðið eftir staðfestingu á þessu loforði en við höfum ekkert heyrt. Við erum því að velta fyrir okkur hvað taki nú við," sagði Jan Ottosen, Daninn sem þjálfar ástralska landsliðið, í viðtali við HBOLD.dk.

Ottosen segir að það sé nánast ómögulegt að fjármagna landsliðið enda vill enginn styrkja lið sem hefur að því virðist enga framtíð.

„Landsliðið er í pásu fram í janúar en þá verða kannski æfingabúðir fyrir þá leikmenn sem spila í Evrópu. Ef IHF stendur við sitt loforð þá spilum við einhverja leiki á árinu 2015 til að halda landsliðinu gangandi," sagði Ottosen en forkeppni ÓL fer væntanlega ekki fram fyrr en vorið 2016.

Íslenska landsliðið á miklu meiri möguleika á sæti á ÓL nú þegar liðið getur tryggt sig inn í forkeppnina með góðum árangri á HM í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×