Innlent

Alþingi kjararáð aldraðra og öryrkja

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Helgi Hjörvar er þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar er þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Fréttablaðið/Ernir
Aldraðir og öryrkjar ættu að fá afturvirkar kjarabætur, líkt og kjararáð hefur úthlutað kjörnum fulltrúum, dómurum og forstöðumönnum ríkisstofnana. Þetta kom fram í máli Kristjáns L. Möllers og Helga Hjörvars, þingmanna Samfylkingar, í umræðum um störf þingsins í gær.

Helgi segir þingmenn vera „kjara­ráð“ aldraðra og öryrkja. „Það getur ekki gengið að eftir þá erfiðu tíma, sem ekki síst þeir efnaminnstu hafa þurft að ganga í gegnum undanfarin ár, séu allir helstu hátekjuhóparnir í landinu leiðréttir aftur í tímann á kostnað ríkissjóðs að stórum hluta til, en þeir sem minnst bera úr býtum fái ekki afturvirka leiðréttingu.“ 

Um leið segir Helgi sjálfsagða kröfu að aldraðir og öryrkjar njóti sömu lágmarkslauna og aðrir hópar. „En til þess þarf að gera verulegar breytingar á fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi eins og við, þingflokkur Samfylkingarinnar, höfum flutt tillögu um og ég hygg að stuðningur sé við í öllum þingflokkum hér á þinginu þó að stjórnarforustan hafi ekki léð máls á því enn.“

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, gerði kjör aldraðra og öryrkja einnig að umtalsefni og kvað „holan hljóm“ í orðum forsætisráðherra um góða stöðu þjóðarbúsins ef skilja ætti eftir þennan hóp enn á ný. „Ég tel að borð sé fyrir báru í íslenskum ríkisbúskap að koma til móts við kröfur eldri borgara og öryrkja.“  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×