Innlent

Alþingi fordæmi ákvörðun Trumps

Snærós Sindradóttir skrifar
Logi Einarsson. formaður Samfylkingarinnar
Logi Einarsson. formaður Samfylkingarinnar
Þingmenn Samfylkingarinnar leita nú stuðnings hjá öllum þingmönnum á Alþingi til að fordæma tilskipun forseta Bandaríkjanna um að banna fólki frá Sýrlandi, Írak, Íran, Jemen, Lýbíu, Sómalíu og Súdan að koma til Bandaríkjanna.

Í tillögu til þingsályktunar sem send hefur verið öllum þingmönnum segir að Alþingi skuli fordæma harðlega tilskipunina.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að aðgerð Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sé fordæmalaus og réttlæti að þjóðþing Íslendinga fordæmi aðgerðina.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á von á orðsendingu frá íslenskum Alþingismönnum ef vonir þingmanna Samfylkingar ganga eftir.vísir/epa
„Við teljum mjög mikilvægt að þjóðþingið sjálft fordæmi þetta og sendi skýr skilaboð til Bandaríkjanna og heimsins að íslensk þjóð líði ekki mismunun á grundvelli trúarbragða og þjóðernis,“ segir Logi.

Logi hefur ekki áhyggjur af því að ályktunin kunni að hafa vond áhrif á samskipti Íslands og Bandaríkjanna. „Ég held að það myndi hafa slæm áhrif á samskipti þjóðanna ef hann kemst óáreittur upp með þessa hegðun sína.“

„Við sendum hana á alla þingflokka og viljum helst að allir þingmenn séu á henni. Við höfum kallað eftir því að þetta sé ekki tillaga frá Samfylkingunni heldur frá Alþingi,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×