Innlent

Alræmdur svindlari í gæsluvarðhald: Fjöldi örvæntingarfullra leigjenda í sárum

Sveinn Arnarsson skrifar
Fjölmargir Íslendingar hafa kært Halldór á síðustu dögum og vikum vegna svika og pretta.
Fjölmargir Íslendingar hafa kært Halldór á síðustu dögum og vikum vegna svika og pretta. Vísir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur hneppt Halldór Viðar Sanne í vikulangt gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna. Fjölmargir Íslendingar hafa kært Halldór á síðustu dögum og vikum vegna svika og pretta. Halldór á sér langa sögu og hefur áður hlotið þungan dóm fyrir fjárdrátt.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að maður sé í haldi lögreglu grunaður um fjársvik tengd leigustarfsemi. „Það er rétt að við yfirheyrðum í fyrradag mann sem grunaður er um fjársvik í tengslum við leigu íbúðarhúsnæðis. Vegna rannsóknarhagsmuna var hann í gær úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald,“ segir Grímur.

„Ég get ekki farið nánar út í það en við munum vinna að rannsókn þessara mála áfram og afla okkur allra nauðsynlegra upplýsinga á meðan.“

Halldór hefur nú ítrekað gerst milliliður fyrir fólk í leit að húsnæði til leigu. Hefur Halldór tekið íbúðir á leigu og framleigt þær öðrum, stolið undan leigugreiðslum þeirra og greitt aðeins fyrsta mánuðinn til réttra eigenda.

Lögreglan gerir sér ekki alveg grein fyrir því á þessari stundu hversu mörg málin verða þegar öll kurl verða komin til grafar.

„Til að mynda kom inn á borð lögreglunnar ein kæra í gær [fyrradag] og því getum við ekki með vissu sagt hversu mörg málin eru. Hins vegar get ég staðfest að þau eru nokkur sem um ræðir.“

Halldór Sanne hefur ítrekað ratað á síður blaðanna vegna svindls, svika og pretta.

Til að mynda hlaut hann þungan dóm í Danmörku og var gerður brottrækur þaðan fyrir umfangsmikið símasvindl þar sem hann vélaði um 800 farsíma af fólki með loforði um skjótan hagnað. Afplánaði Halldór hluta þess dóms á Kvíabryggju.

Halldór verður í gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 4. apríl. Á þeim tíma mun lögregla taka skýrslu af aðilum málsins, leita gagna um samskipti Halldórs við fórnarlömb sín og átta sig á umfangi svikanna.




Tengdar fréttir

iPhone svindlarinn hafði fé af um hundrað manns

Halldór Viðar Sanne, sem situr í gæsluvarðhaldi í Kaupmannahöfn fyrir að svíkja fé út úr fólki er grunaður um að hafa svikið um 100 manns. Þetta segir Henning Schmidt, yfirmaður efnahagsbrotadeildar dönsku lögreglunnar í samtali við Vísi. Hann er talinn hafa staðið einn að svindlinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×