Fótbolti

Almunia leggur hanskana á hilluna vegna hjartagalla

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Manuel Almunia.
Manuel Almunia. Vísir/Getty
Spænski markvörðurinn Manuel Almunia sem lék með Arsenal um átta ára skeið og um tíma sem aðal markvörður liðsins lagði í gær hanskana á hilluna samkvæmt læknisráði en Almunia greindist með hjartagalla í læknisskoðun.

Almunia hefur verið á flakki undanfarin ár en hann eyddi hálfu ári á láni hjá West Ham áður en hann gekk til liðs við Watford um sumarið 2012. Hjá Watford lék Almunia 76 leiki í öllum keppnum en samningur hans rann út nú í vor.

Almunia komst að samkomulagi við Cagliari á dögunum og var í læknisskoðun hjá félaginu þegar læknar liðsins komust að hjartagallanum og neyðist hann til þess að leggja hanskana á hilluna eftir 20 ára feril.

Um tíma íhugaði Fabio Capello, þáverandi landsliðsþjálfari Englands, að bjóða Almunia sæti í enska landsliðinu þegar honum bauðst enskur ríkisborgararréttur. Ekkert varð úr því hinsvegar og lék hinn spænski Almunia því aldrei landsleik á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×