Erlent

Almennir borgarar stráfelldir í Aleppo

Samúel Karl Ólason skrifar
Aleppo hefur orðið mjög illa úti.
Aleppo hefur orðið mjög illa úti. Vísir/AFP
Stjórnarher Sýrlands og uppreisnarmenn hafa gert fjölmargar árásir í Aleppo í Sýrlandi í dag. Uppreisnarmenn gerður stórskotaárás á mosku á meðan bænir stóðu yfir og stjórnarherinn hefur gert fjölmargar loftárásir. Minnst 200 almennir borgarar hafa fallið í borginni á síðastliðinni viku.

Sameinuðu þjóðirnar segja báðar fylkingar sýna lífum borgara lítilsvirðingu og friðarviðræður sem höfðu staðið yfir í Genf í tvo mánuði virðast vera úr myndinni.

Borgin hefur verið miðpunktur umfangsmikilla átaka um nokkurt skeið en þar halda enn til um 250 þúsund manns á yfirráðasvæði uppreisnarmanna. Þá er stjórnarherinn sagður undirbúa stórsókn gegn uppreisnarmönnum.

Eftirlitsaðilar vara við því að birgðaleið þessara íbúa gæti lokast komi til slíkrar sóknar. Í samtali við AP fréttaveituna sagði aðgerðasinni að íbúar væru þegar byrjaðir að flýja Aleppo. Hann sagði að ef herinn hæfi umsátur um borgina myndu íbúar hennar svelta á innan við mánuði.

Áður en borgarastyrjöldin hófst var Aleppo stærsta borg Sýrlands og miðpunktur verslunar. Borgin hefur komið verulega illa út í átökunum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi sem BBC birti fyrir um mánuði síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×