Fótbolti

Allur Arnarhóllinn í tilfinningarússíbana í gær | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnarhóllinn í gær.
Arnarhóllinn í gær. Vísir/Eyþór
Veraldarvefurinn hefur verið uppfullur af stórskemmtilegum myndböndum af viðbrögðum Íslendinga eftir sigurinn sögulega á Englendingum í Nice í gær.

Danir hafa, eins og aðrir Norðurlandabúar, fylgst vel með íslenska liðinu á Evrópumótinu en eins og kunnugt er komust Danir ekki til Frakklands.

Danska ríkissjónvarpið hefur fjallað ítarlega um íslenska landsliðið og frábæra stuðningsmenn þess frá því að það var flautað af í Nice og ljóst var að Ísland væri komið í átta liða úrslit.

Meðal myndbandanna sem Danir hafa útbúið fyrir fésbókarsíðu DR er myndband af þeim sem troðsfylltu Arnarhólinn í gær.

Þar hafa DR-menn sett myndbandið af íslenska stuðningsfólkinu á Arnarhól í samhengi við það sem var að gerast í leiknum á Allianz Riviera.

Íslenska liðið fékk nefnilega martraðarbyrjun þegar Wayne Rooney kom Englandi í 1-0 á 4. mínútu en íslensku strákarnir komu gríðarlega sterkir til baka.  Ragnar Sigurðsson jafnaði 90 sekúndum síðar og eftir fjórtán mínútur var Kolbeinn Sigþórsson síðan búinn að koma Íslandi yfir.

Íslenska liðið hélt síðan út leikinn og fagnaði sigri á meðan ensku landsliðsmennirnir lögðust margir hverjir niðurbrotnir í grasið.

Fyrir vikið upplifði fólkið á Arnarhól sannkallaðan tilfinningarússíbana í gær eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×