Lífið

Alltaf haft mikinn áhuga á draumum

Næsta draumanámskeið Valgerðar verður haldið 22. janúar.
Næsta draumanámskeið Valgerðar verður haldið 22. janúar. Vísir/GVA
„Draumar eru flókið fyrirbæri og enginn veit nákvæmlega hvað þeir eru, hvaðan þeir koma og hver tilgangur þeirra er. En það eru til ótal kenningar,“ segir Valgerður H. Bjarnadóttir, félagsráðgjafi með BA-gráðu í heildrænum fræðum með áherslu á draumavinnu.

Hún hefur í gegnum tíðina haldið fjölda námskeiða og veitt ráðgjöf um drauma. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á draumum. Mig dreymdi mikið og mundi draumana mína vel sem barn.“

Valgerður segir ríkjandi tilhneigingu til þess að líta á drauma sem forspár fyrirbæri eða ómarktæka, en hún vill hins vegar meina að draumar búi yfir dýpri merkingu.

„Draumar geta stundum verið fyrir einhverju en ég held að oftast séu draumar um eitthvað, það er að segja um það sem er í gangi í lífi okkar og þeir gefa okkur þá einhvers konar nýja sýn á það. Oft eru þeir að segja okkur um fortíðina, eitthvað sem er óunnið í okkur. Ótta eða sorg, kvíða eða eitthvað sem við erum einhvern veginn að burðast með og höfum ekki verið tilbúin að vinna úr.“

Valgerður segir að þegar að draumarnir koma upp í meðvitund einstaklinga sé það vísbending um að þeir séu tilbúnir til þess að vinna með og úr viðfangsefni draumsins.

Hún segir drauma þó ekki einungis gefa vísbendingu um óunna erfiðleika.

„Draumar geta bæði hjálpað okkur að sjá það sem er erfitt og það sem við þurfum að vinna úr. En hjálpa okkur ekki síður að sjá auðinn sem við búum yfir og möguleikana sem við höfum.“ Með því að vinna með og taka mark á draumunum geti fólk nýtt draumana sér til góðs.

Valgerður hefur í gegnum árin haldið námskeið þar sem hún meðal annars hjálpar fólki við að vinna með og nýta drauma sína.

„Það sem ég er að reyna að gera er í rauninni að miðla þekkingu til fólks um það hvernig hægt er að nýta svefndraumana sína, til þess að skilja sjálfan sig betur, til þess að taka markvissari ákvarðanir í lífinu og svo framvegis.“

Næsta draumanámskeið Valgerðar fer fram þann 22. janúar í Lygnu og hefst klukkan sjö. Frekari upplýsingar um Valgerði og námskeið hennar má nálgast á vefsíðunni Vanadis.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×