Fótbolti

Allt varð vitlaust í klefanum eftir tap á móti Kolbeini og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Sane var búinn að missa fyrirliðabandið og í gær missti hann algjörlega hausinn inn í klefa.
Lamine Sane var búinn að missa fyrirliðabandið og í gær missti hann algjörlega hausinn inn í klefa. Vísir/Getty
Bordeaux-leikmennirnir Jerome Prior og Lamine Sane tóku því afar illa þegar liðið tapaði í bikarnum á móti Nantes í gærkvöldi.

Kolbeinn Sigþórsson skoraði eitt marka Nantes í dramatískum 4-3 sigri en úrslitin réðust ekki fyrr en í framlengingu.

Varnarmaðurinn Lamine Sane og markvörðurinn Jerome Prior slógust í búningsklefanum eftir leikinn og þeir hafa nú báðir verið settir í ótímabundið bann hjá félaginu.  L´Equipe segir frá þessu máli í dag.

Jerome Prior er tvítugur markvörður sem kom inn fyrir aðalmarkvörðinn Paul Bernardoni í þessum leik. Prior var augljóslega mjög reiður þegar hann gekk af velli og Willy Sagnol þjálfari liðsins reyndi að róa hann niður.

Það gekk hinsvegar ekki betur en það að Jerome Prior og varnarmaðurinn Lamine Sane fóri að slást inn í klefa. Sane er átta árum eldri og hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu undanfarin sex tímabil.

Lamine Sane hefur hinsvegar glímt við hnémeiðsli á þessari leiktíð og honum gekk illa að vinna sér sæti í liðinu eftir að hann kom til baka. Sane hefur fengið að spila bikarleikina en er ekki búinn að spila deildarleik síðan í lok nóvember.  Hann var fyrirliði liðsins en er búinn að missa fyrirliðabandið.

Það varð allt vitlaust í klefanum og öryggisverðir á leikvanginum þurftu á endanum að grípa í taumana til að róa menn niður. Jerome Prior og Lamine Sane voru ekki þeir einu sem misstu sig en þeir sem gengu lengst.

Bordeaux gaf frá sér yfirlýsingu um málið þar sem félagið staðfesti bannið en jafnframt það að félagið muni ekki tjá sig meira um málið og að engum spurningum um það verði svarað.

Varnarleikur Bordeaux hefur verið afar slakur að undanförnu en liðið hefur fengið á sig 18 mörk í síðustu 6 leikjum. Fjarvera þeirra Jerome Prior and Lamine Sane mun því ekki hjálpa til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×